Thursday, April 27, 2006

Vinkona mín var að segja mér frá því þegar hún bjó á Liberty Street og herra og frú R bjuggu við hliðina á henni.
Einn daginn var herra R að vinna í garðinum sínum og hann fann eldgamla flösku. Það er ekki óalgengt að finna eitthvað gamalt hér um slóðir því að fólk hefur búið hérna lengi og í gamla daga gerði gróf fólk rusl í staðinn fyrir að fara á ruslahauga með það, (kannski af því að ruslahaugar voru ekki til?)

Nema hvað, herra R var að gera eitthvað í garðinum og rakst á gamla flösku. Hún var útskorin og á henni stóð POISON og svo var mynd af haupskúpu með exi yfir til að sýna að hér væri um alvöru eitur að ræða.

Frú R leist vel á flöskuna, fannst hún flott og spes svo að hún ákvað að eiga hana og nota hana. Hún setti stundum blóm í hana og notaði hana sem vasa, eða bjó til kool aid og setti í flöskuna. Flaskan var bara hluti af búinu.

Tveimur árum seinna var hún komin með leið á flöskunni svo hún ákvað að setja hana í endurvinnslu. Endurvinnsla hérna virkar þannig að maður setur allt sem maður vill endurvinna í bláan opinn bala, og setur það við götuna með ruslinu, sem maður vill að ruslakallarnir taki.

Flaskan lá í bláa balanum en einhvern veginn datt hún út og rúllaði yfir götuna.

Seinna um daginn varð frú R litið út um gluggann einhverra hluta vegna. Það var mikið um umferð á götunni sem hún bjó við, gatan var jafnvel nokkuð svipuð Hringbrautinni heima, nema öðruvísi.

Nema hvað henni verður litið út og það er eitthvað í gangi út á götu. Öll umferð hefur verið stöðvuð og það eru margir bílar sem á stendur: BIOHAZARD (þýðing óskast). Hún sér menn sem eru í appelsínugulum búningum, svona eins og geimbúningum, með hjálma haldandi á töng, að nálgast eitthvað ofur varlega. Þeir lyfta einhverju með tönginni og hún sér hverju þeir eru að lyfta: flöskunni sem hún hafði seinustu tvö ár notað undir kool aid og blóm til skiptis.

Hún ákvað að vera ekkert að hlaupa út á götu til þess að segja mönnunum í gulu búningunum hvaðan flaskan hefði komið.

|