Mér líður stundum eins og lífið mitt sé kvikmynd þessa dagana.
Eins og þegar yfirmaðurinn minn á Fuji dregur fram karókí tækið og byrjar að syngja Piano Man. Við skulum bara segja að hann hljómar mjög mjög svipað William Hung.
Og svo líka í gærkvöldi.
Málið er að eldhúsfólkið sest yfirleitt niður og borðar í lok vaktar á kvöldin en þjónustuliðið borðar aldrei með þeim. Þau eru yfirleitt ekki að borða sushi eða neitt fínt heldur bara eitthvað úr skálum með hrísgrjónum. Yfirleitt borða þau í þögn eða spjalla saman á sínu máli, kóresku (.........?........., æi þau eru frá Kóreu flest). Nema hvað, um þetta leyti kvölds er ég yfirleitt að ganga frá barnum svo ég geri ekkert meira en að gjóta til þeirra forvitnisaugum og spá í hverju þau séu að gæða sér á.
Í gærkvöldi höfðu þau það aðeins fínna og störtuðu hibachi (hibachi borð er borð sem fólk situr í kringum heita pönnu en það er borð í kringum pönnuna sem fólkið situr við og borðar, svo stendur kokkur við pönnuna og skellir á hana olíu, grænmeti, hrísgrjónum (fried rice) núðlum, rækjum og fleira, svo skellir kokkurinn matnum á diskana hjá fólkinu sem situr í kringum borðið, á meðan hann grínast og gerir kokka-kúnstir, bæði gaman og gott).
Nema hvað, í gærkvöldi var hibachi fjör hjá eldhúsliðinu, þau komu til mín og fengu hrísgrjónavín og níu glös og settust svo niður og bjuggust til að borða. Ég taldi bjóra og vínflöskur, þvoði glös og gekk frá barnum. Þjónustupíurnar voru farnar heim. Allt í einu kalla þau í mig "Dísa, Dísa come over here!" svo ég labbaði, fékk lítið glasi af hrísgrjónavíni (sake) og fékk mér sæti við enda borðsins, næst kokknum. Svo byrjaði hann að elda, tala og grínast. En allt á þeirra máli.
Svo ég sat og borðaði og fylgdist með og reyndi að giska á hvað þau voru að segja. Af og til gjóaði ég augunum til mexíkanska sushi kokksins og brasilísku stelpunnar sem er uppvaskari og velti því fyrir mér hvort að þau skyldu meira en ég.
Góð máltíð samt.
Fyrir þá sem eru ekki alveg að fatta allt þetta hibachi og allt það þá bendi ég á þessa síðu.