*Jæja mamma er í heimsókn svo að metnaðurinn til að blogga hefur verið hverfandi á síðustu dögum, en mun þó eflaust koma aftur brátt.
Ég leitaði vel og lengi að stjörnumerkinu þarna að ofan á lyklaborðinu mínu og fann það loksins eftir mikla leit. Núna er ég búin að týna því aftur. Getur einhver sagt mér í eitt skipti fyrir öll hvar þetta merki er á íslensku lyklaborði?!!!
Ég tók bílpróf í gær og það gerðist mikill skandall. Ég náði prófinu en þau tóku ekki nýja mynd af mér heldur verður notuð myndin sem var tekin í bráðabirgðaleyfið mitt í ökuskírteinið. Sú mynd var tekin mér algjörlega að óvörum þar sem ég var í rólegheitum að taka skriflega prófið um daginn. Ég er ómáluð á henni, ofurglansandi í framan, með undirhöku og hálflokuð augu. Einnig var mér lofað þegar sú mynd var tekin að það yrði ekki myndin sem yrði í varanlega skírteininu mínu.
Það loforð var svikið og nú er Department of Motor Vehicles á dauðalistanum mínum.