Mig dreymdi furðulegan draum í nótt.
Mig dreymdi að ég ætti bráðum afmæli og segði við pabba minn að mér þætti gaman að fá heila skrúðgöngu af stórum Svamps Sveinssonar (spungebog squrepants) blöðrum í afmælisgjöf. Svo áttaði ég mig á því hvað það myndi kosta og að ég gæti nú fengið margt eigulegra fyrir þann pening svo ég skipti um skoðun og bað hann í lengstu lög að gefa mér eitthvað annað og alls ekki skrúðgöngu af risastórum svamps sveinssonar blöðrum.
En svo kom að afmælisdeginum og mér til mikillar mæðu fékk ég skrúðgönguna í afmælisgjöf frá pabba. Ég man eftir að hafa sagt við pabba: "Hvað kostaði þetta mikinn pening?!" Og hann svaraði: "Ég fékk hjálp frá Sigga Hlö sem er með sjónvarpþáttinn með hausverk um helgar og þetta kostaði ekkert miðað við hvað hver þáttur kostar hjá þeim, tíu milljónir!"
Ég varð svo brjálæðislega fúl að ég flutti til Feneyja. Þar hitti ég Önnu Björk og Rakel og við fórum að skoða skó. Við fundum stígvél sem voru nákvæmlega eins og mín rauðu og þær ákváðu báðar að fá sér svoleiðs. Ég var ekki sátt við það heldur. Þegar þetta var að gerast fór ég að heyra barnsgrát og uml sem hætti ekki þó að ég bylti mér, endaði á því að ranka við og sjá þar Daníel Bjarna sem lá við hliðina á mér kjökrandi af því að hann hafði haft martröð. Hann dreymdi að hann hefði verið að berjast við ill vélmenni og ekki náð að gera neitt rétt. Við ræddum drauma okkar í smá stund og svo ákvað ég að sofa meira og hann að fara á fætur (klukkan var sex!)
En í dag leit ég á bloggsíðu pabba og sá mynd úr afmæli Hönnu Rakelar systur sem varð átta ára í dag, ég hrökk pínku í kút þegar ég sá að allir diskar, servíettur, glös og (að mér sýndist kaka) voru í sama þema: Svampur Sveinsson!