Tuesday, February 21, 2006


Mig langar að kæra Hauk íþróttakennara.


Ég var að horfa á Neil og
Daníel leika sér áðan í þannig leik að þeir skiptast á að liggja á gólfinu og hoppa yfir hvorn annan.
Þá rifjaðist upp fyrir mér þesgar ég var svona níu til ellefu ára og var í skólaleikfimi í gamla daga. Í eitt skiptið lét íþróttakennarinn nokkra krakka liggja á dýnu á gólfinu og hinir krakkarnir áttu að taka kollhnís yfir hina krakkana.

Ég var aldrei góð í þessum fimleikalistum sem við áttum að framkvæma í þessari asnalegu skólaleikfimi og meiddi mig þegar ég reyndi þetta. Höfuðið bögglaðist undir mig og ég meiddi mig svo mikið í hálsinum að ég þurfti að fara upp á heilsugæslustöð.

Síðan að þetta gerðist hef ég verið með króníska vöðvabólgu og hálseymsli.

Ef einhver lögfræðimenntaður vill hjálpa mér að lögsækja þennan íþróttakennara og fá hann og/eða Mýrarhúsaskóla til að borga fyrir hnykkmeðferð, nudd og sjúkraþjálfun þá endilega hafið samband.

Einnig vil ég nota tækifærið og lýsa andúð minni á skólaleikfimi eins og hún var í þá daga og er vonandi ekki ennþá í dag.
Að taka próf íþróttum með því að ætlast til að hver einn og einasti aðili í þrjátíu manna bekk geti gert einhverjar fáránlegar æfingar á dýnu og hoppað yfir einhverja kistu, hest og kubb er náttúrulega bara eins sú mesta vitleysa sem ég hef heyrt um síðan ég heyrði um fitulausan rjóma. Þetta var næstum því nóg til að vekja hjá mér ævilanga andúð á hvers konar hreyfingu og íþróttum.
Ég vildi næstum að ég hefði fengið ævilanga andúð á hreyfingu og íþróttum á að hafa verið í þessari skólaleikfimi, væri í dag offitusjúklingur og myndi fara í mál við Hauk og Mýró og láta þau borga fitusog!

Skólaleikfimi er fáránleg!

|