Sunday, January 22, 2006



Það var ótrúlega gaman hjá mér á afmælisdaginn. Eftir að hafa fengið góð símtöl frá vinum og vandamönnum á Íslandi ákvað ég að skella mér í ljós sem er alltaf gott í skammdeginu. Náði að sólbrenna aðeins og skellti mér léttgrilluð í mollið þar sem ég þurfti að eyða smá afmælispening. Keypti mér fín föt, snyrtivörur og heilsubótaefni og hélt heim á leið.

Þegar heim var komið var ákveðið að hringja í góða vini og fara út að borða. Vinirnir eru Ari Páll og Marlísa. Þeim datt í hug hin stórgóða hugmynd að fara á hibachi grill. Það er ótrúleg upplifun. Hópur af fólki situr í kringum steikarpönnu sem er eins og á myndinni hér að ofan og velur hvað það vill borða. Steik, humar, rækur eða eitthvað annað gott og með því fylgja steiktar núðlur og steikt hrísgrjón.

Svo kemur kokkurinn fram með hráefnið þegar allir eru búnir að panta sér drykki. Hann skellir öllu á pönnuna með þvílíkum látum, kúnstum, gríni og brellum. Segir brandara, kveikjir í pönnunni, kveikir í eggjum. Segir "who´s your daddy?" við humar jafnt sem steikur á milli þess sem hann lemur þau með steikaráhöldum.

Eftir að hafa skellt í mig romm og kók jafnt sem sakí (hrísgrjónavín) var komin svo mikil bullandi stemming í mannskapinn að við héldum í mína íbúð þar sem við grínuðumst mikið og skelltum svo Doors á fóninn og dönsuðum eins og brjálæðingar. Þegar ég var að dansa og syngja áttaði ég mig á því hvað poppstjörnur verða að vera í frábærlega góðu formi til að geta sungið svona og dansað á sviðinu í fleiri klukkutíma í einu, vá ég stóð á gati.

Eins og þetta hefði ekki verið nóg sprell á einni helgi þá átti Marlísa afmæli akkúrat degi á eftir mér og var með fráááábært partý í gærkvöldi. Ótrúlega skemmtileg blanda af fólki. Allir komu með skemmtilegar áfengistegundir og krakkana sína og svo var pöntuð pizza og thai matur sem var algjörlega gómsætt. Fór ekki heim fyrr en að ganga fjögur.

Akkúrat núna er Neil úti í löngum göngutúr með Neil ásamt Marlísu og Ara Páli. En ég datt niður dauð úr þreytu eftir að hafa búið til frábærar samlokur í hádegismat og gat engan veginn rifið mig á fætur þó að það sé æðislegt veður úti.

Á morgun byrjar skólinn og alvara lífsins og mér finnst ég vera algjörlega tilbúin undir svoleiðs eftir svona ótrúlega skemtilega og hressandi helgi. 25 ára afmæli: vel heppnað. Só vott þó að ég sé gömul, ég er gömul sál og ung í anda. Með beibífeis.

|